Archive for nóvember, 2008

Hvernig á að fjarlægja hitabletti af viðarborðum

Það er hægt að fjarlægja hitabletti af viðarhúsgögnum með því að fylgja eftirfarandi leiðbeiningum:

  • Fyrst þá þarf að þrífa borðið vel og þurrka það mjög vel.
  • Svo tekur maður hreint hvítt handklæði, sem er ekki of þykkt, og leggur yfir blettina.
  • Svo notar maður gufustraujárn, með gufunni, og straujar handklæðið og bletturinn hverfur. Maður þarf bara að passa að þurrka alla eftirliggjandi gufu af strax.

ATH: Þetta ráð virkar ekki alltaf, það getur verið að það skipti máli með hverju borðið hefur verið lakkað. Endilega setjið inn athugasemdir um það hvort og hvernig þetta  virkaði hjá þér.

Comments (1)

Kaffilitaðir kaffibollar

Ef að bollarnir þínir eru orðnir litaðir eftir kaffið eða teið þá er mjög auðvelt að þrífa litinn úr með því að setja smá uppþvottavéladuft í þá (ca 1/2 tsk er nóg) og filla svo upp í með heitu vatni, láta vatnið standa í bollunum í amk 15 mín og þá er auðvelt að þvo litinn úr. Það þarf ekkert að skrúbba eða neitt.

Comments (1)

Blóðblettir úr fötum

Ef þú tekur eftir því að þú hefur nýlega fengið lítinn blóðblett í fötin þín (þetta virkar náttúrulega ekki ef um mikið magn af blóði er um að ræða) þá virkar mjög vel að setja hreina þurra tusku undir blettinn og nota svo aðra tusku, bleytta með köldu vatni, til að nudda blettinn.

Þetta er ráð sem að amma mín gaf mér og það hefur alltaf virkað hjá mér þegar ég hef prufað það.

Comments (1)

Útflatt hakk

Ég kaupi alltaf magnpakkningar af hakki, lúxus sem er í boði þegar maður býr í útlöndum. Til þess að hakkið fari ekki til spillis þá skipti ég því niður í litla plastpoka (4 ltr) þannig að það sé 300-350 gr í hverjum poka, svo nota ég kökukeflið mitt til að fletja út hakkið (í pokanum). Svo stafla ég útflöttum hakkpokunum í frystinn hjá mér, þannig á ég alltaf til hæfilegt magn af hakki fyrir fjölskylduna . Það tekur líka enga stund að þýða hakkið, því að pokinn er flattur þunnt út. Þetta henntar mér vel því að oft á tíðum nenni ég ekki að undirbúa matinn fyrr en á seinustu stundu.

Comments (1)

Lýsisblettir í fötum

Ef það kemur lýsi í föt þá getur verið einstaklega erfitt að ná blettinum í burtu. Það sem hefur reynst mér best er að taka góðan uppþvottalög og nudda honum vel í blettinn og setja flíkina svo í þvott. Bletturinn fer ekki alltaf í fyrsta þvott en yfirleitt er hægt að ná lýsisblettum með þessari aðferð og smá þolinmæði. Þetta á reyndar við um aðra fitubletti líka.

Færðu inn athugasemd

Skýjaðir blómavasar

Til að þrífa skýjaða blómavasa er gott að setja fullt af salti (gróft salt er betra en fínt) og fylla þá svo af vatni, þá verða þeir aftur hreinir og fínir.

Comments (1)

Ofnahreinsir

  • 1/2 stór bónus dós af matarsóda
  • vatn

Blanda vatninu saman við matarsódann þangað til að úr verður drulla, taka tusku og strjúka drullunni útum allan ofn, á glerið og útum allt. Láta drulluna bíða í 10 mín og þá er hægt að byrja að nudda drulluna í burtu. Það besta er að því oftar sem þú notar matarsódann þeim mun auðveldara verður að þrífa ofninn næst, svo er þetta mun betra fyrir náttúruna heldur en búðarkeyptir ofnahreinsar.

Comments (1)

Glerhreinsir

  • Vatn
  • Mýkingarefni

Með því að setja mýkingarefni í vatnið þegar maður þrífur gler (td. glugga) þá fær maður góða lykt í húsið og glerið verður mjög gljáandi.

Færðu inn athugasemd

Glerhreinsir

  • Edik
  • Vatn

Til þess að þrífa gler er gott að nota vatn blandað með ediki.

Færðu inn athugasemd

Svitalykt í fötum

Til að losna við svitalykt sem er föst í fötum þá er sniðugt að taka fötin og leggja þau í edikbleyti, ég læt fötin yfirleitt lyggja í ediki yfir nótt og þvæ þau svo tvisvar sinnum í þvottavélinni. Það er ekki nauðsynlegt að þvo þau tvisvar sinnum, en mér líkar ekki ediklyktin og því þvæ ég fötin oftar.

Færðu inn athugasemd

Older Posts »